fimmtudagur, 8. desember 2011

"Ilmurinn úr eldhúsinu er svo lokkandi....."Jæja nú erum við loksins byrjuð að baka til jólanna. Við erum nú ekki vön að baka neitt voðalega margar tegundir aðallega vegna þess að guttinn á heimilinu er með svo mikið fæðuofnæmi að hann má ekki borða neinar af þessum klassísku jólasmákökum. En í kvöld ákváðum við að skella í stóra uppskrift af sjúklega mjúkum, dásamlega seigum og ilmandi súkkulaðibitakökum. Því miður má guttinn ekki borða þær en við gerum bara ofnæmisvænar kökur næst og þá læt ég kannski fylgja uppskrift fyrir þá sem eru í sömu sporum og guttinn minn.
Ég vildi að ég gæti sent ykkur öllum ilminn úr eldhúsinu mínu yfir netið.... omnomnom..en fyrst að það er ekki hægt þá verð ég að sýna ykkur myndir!
Jább, þær eru stórar, mjúkar og bráðna í munni!!

Girnilegar ekki satt?
Fyrir ykkur sem fenguð vatn í munninn þá ætla ég að láta uppskriftina fylgja með ;-)

Súkkulaðisælur

125gr Akra (mýkra og betra) smjörlíki
125gr ljós púðursykur
50 gr sykur
1 egg
1 tsk vanilludropar
175gr hveiti
1/2 tsk salt
1 tsk natron
200gr grófsaxað Sirius suðusúkkulaði

Aðferð:
Ofninn hitaður í 190°c á blæstri. Smjörlíkið, ljósi púðursykurinn og sykurinn hrært vel saman, egginu og vanilludropunum bætt útí og hræra aftur vel. Síðan er hveitið, saltið og natronið sett útí hægt og rólega og hrært samanvið. Handhræra súkkulaðibitunum saman við degið. Nota svo skeið til að setja degið á bökunarplötuna, passa að hafa pínu bil á milli því þær renna svolítið út við bakstur. Baka í c.a. 8 minútur ef þið viljið hafa þær svona mjúkar og seigar eins og ég ;-) (Eða bara þangað til þær eru orðnar gullinbrúnar)

Þessar eru rosalega góðar með kaldri mjólk!
Ég er komin með fullan munninn af köku og kámugar hendur á lyklaborðið svo ég segi þetta gott í bili *fliss*

...þangað til næst, hafið það sem allra best!
xoxo

2 ummæli: