laugardagur, 24. desember 2011

Við óskum ykkur gleðilegra jóla og megi nýja árið færa ykkur gæfu og gleði :)
Hlökkum til að deila með ykkur hugmyndum, DIY verkefnum og fagurheitum á nýja árinu!
xoxo
Allt er vænt sem vel er hvítt

laugardagur, 10. desember 2011

Hreindýra-makeover og franskir englar

Jæja elskur!
Nú er ég byrjuð að brasa svolítið aftur, alveg að verða búin í prófunum og hugurinn löngu kominn eitthvert annað en í skólabækurnar ;-) Mín bíða nokkur húsgögn sem vilja endilega láta taka sig í gegn og nú fer að verða smá tími aflögu í svoleiðis bras.
Mér datt í hug í dag (í staðin fyrir að læra) að taka eitt svart hreindýrakrútt sem ég fékk að gjöf fyrir mörgum árum og skella því í makeover. Mig minnir að það hafi fengist í "Rúmfó" á sínum tíma voðalega krúttlegt hreindýr ætlað undir sprittkerti. Mig langaði ekki lengur að hafa það svart og svo heppilega vildi til að ég átti pínulítinn afgang af antikhvítu spreyi. Ég lét bara vaða á hreindýrskrúttið og mér líkar miklu betur við það svona:
Svo datt mér í hug svolítið mini-project. Ég á nefnilega rosalega mikið af glerkrukkum sem ég safnaði að mér í sumar, skreytti þær og notaði undir blóm og kerti á ættarmóti. Ég hreinsaði þær vel, fór á google (minn besta vin) og fann nokkrar fallegar, franskar vintage engla ljósmyndir. Ég prentaði myndirnar út, klippti þær til og notaði glært lakk til þess að líma þær inná krukkurnar. Límdi svo blúndu á kantinn á krukkunum og batt snæri utan um blúnduna.
Hvernig líst ykkur á?


Stærstu krukkuna nota ég til að geyma stóru kertin mín og hinar nota ég sem ljósker. Þetta passar svo vel inní franska og norska sveitastílinn sem er svo mikið í tísku um þessar mundir. Ég hef verið að sjá mikið af svona krukkum með vintage myndum á norskum interior bloggum.
Læt fylgja nokkrar myndir ef ykkur langar að prenta þær út og prufa :-)
Munið að klikka á myndirnar til að stækka ;-)

Takk fyrir að líta við hjá mér! Gaman að vita að einhverjir hafi gaman að brasinu í mér ;-)

xo

fimmtudagur, 8. desember 2011

"Ilmurinn úr eldhúsinu er svo lokkandi....."Jæja nú erum við loksins byrjuð að baka til jólanna. Við erum nú ekki vön að baka neitt voðalega margar tegundir aðallega vegna þess að guttinn á heimilinu er með svo mikið fæðuofnæmi að hann má ekki borða neinar af þessum klassísku jólasmákökum. En í kvöld ákváðum við að skella í stóra uppskrift af sjúklega mjúkum, dásamlega seigum og ilmandi súkkulaðibitakökum. Því miður má guttinn ekki borða þær en við gerum bara ofnæmisvænar kökur næst og þá læt ég kannski fylgja uppskrift fyrir þá sem eru í sömu sporum og guttinn minn.
Ég vildi að ég gæti sent ykkur öllum ilminn úr eldhúsinu mínu yfir netið.... omnomnom..en fyrst að það er ekki hægt þá verð ég að sýna ykkur myndir!
Jább, þær eru stórar, mjúkar og bráðna í munni!!

Girnilegar ekki satt?
Fyrir ykkur sem fenguð vatn í munninn þá ætla ég að láta uppskriftina fylgja með ;-)

Súkkulaðisælur

125gr Akra (mýkra og betra) smjörlíki
125gr ljós púðursykur
50 gr sykur
1 egg
1 tsk vanilludropar
175gr hveiti
1/2 tsk salt
1 tsk natron
200gr grófsaxað Sirius suðusúkkulaði

Aðferð:
Ofninn hitaður í 190°c á blæstri. Smjörlíkið, ljósi púðursykurinn og sykurinn hrært vel saman, egginu og vanilludropunum bætt útí og hræra aftur vel. Síðan er hveitið, saltið og natronið sett útí hægt og rólega og hrært samanvið. Handhræra súkkulaðibitunum saman við degið. Nota svo skeið til að setja degið á bökunarplötuna, passa að hafa pínu bil á milli því þær renna svolítið út við bakstur. Baka í c.a. 8 minútur ef þið viljið hafa þær svona mjúkar og seigar eins og ég ;-) (Eða bara þangað til þær eru orðnar gullinbrúnar)

Þessar eru rosalega góðar með kaldri mjólk!
Ég er komin með fullan munninn af köku og kámugar hendur á lyklaborðið svo ég segi þetta gott í bili *fliss*

...þangað til næst, hafið það sem allra best!
xoxo

laugardagur, 26. nóvember 2011

Aðventan

Aðventan gengur í garð á morgun, notaleg, falleg og yndisleg. Þó ég sé nú yfirleitt á síðustu stundu með allan jólaundirbúning þá reyni ég nú að vera tilbúin með aðventukrans áður en fyrsti sunnudagur aðventu skellur á. Mér finnst aðventuskreytingar alveg ómissandi og það er endalaust hægt að leika sér með útfærslur á þeim. Svo getur maður alltaf á sig kertaljósum bætt svona í svartasta skammdeginu :-)
Mig langar til að sýna ykkur ýmsar skandinavískar útgáfur af aðventuskreytingum og enda svo með að sýna ykkur mína skreytingu sem ég var að raða saman í dag.

Látum myndirnar tala:

Allar myndirnar hér að ofan eru fengnar að láni héðan og þaðan af netinu.
Hvít kerti og númer 1-2-3-4 hefur verið mjög vinsælt síðustu 3 ár eða svo og er enn vinsælt enda er þetta ótrúlega flott!! ;-)


Hér koma svo myndir af aðventuskreytingunni minni í ár:
Kertin eru úr Tiger, grenið er úr næstu búð, sveppirnir eru úr Tiger, rauðu berin eru úr Blómaval og litlu jólasveinarnir eru úr Tiger og númerin átti ég í föndurdótinu mínu. Könglarnir eru úr Kjarnaskógi :-) og bakkann átti ég fyrir, hann var keyptur í The Pier á sínum tíma.

Ég óska ykkur notalegrar og rólegrar aðventu með kakó og kertaljósum :-)
xoxo