laugardagur, 5. maí 2012

Eldgömul Rúmfatalagers-kommóða fær ný föt ;-)

Hæhæ elsku fallega fólk!

Mikið er nú langt síðan ég hef skrifað eitthvað hér inn! En nú hlýt ég að fara að standa mig örlítið betur í þessu öllu saman því ég er loksins búin að skila lokaritgerðinni minni (maður þarf víst að forgangsraða) og á bara tvö próf eftir!

Nú þegar ég fékk loksins smá stund milli stríða ákvað ég að taka elsku gömlu rúmfatalagers-kommóðuna mína og klæða hana í ný föt. Mig langaði svo að veggfóðra hana framan á skúffunum en tímdi ekki að kaupa heila veggfóðursrúllu sem ég myndi svo bara kannski nota brotabrot af. Þar sem ég dey nú sjaldnast ráðalaus ákvað ég að finna mynd af einhverju fallegu veggfóðri, svona damask mynstur og prenta það út á nokkur venjuleg A4 blöð.

Svo tók ég fína Europris decoupage límlakkið mitt (virkar eins og Modpodge) og bar það aftan á eitt blaðið

Svo bara skellti ég blaðinu á efstu skúffuna til að prufa (sko auðvitað eftir að ég var búin að taka höldurnar af)

Strauk svo varlega yfir allt með plastsköfu sem ég átti til þess að losna við loftbólur undan pappírnum

... og viti menn og konur... það bara svínvirkaði :-D Svo skar ég bara til næsta blað til þess að láta mynstrið passa og límdi það svo líka á

...og svo koll af kolli þangað til ég var búin að gera eina skúffu pappírsklædda og fína. Svo penslaði ég yfir allt "veggfóðrið" með Eurpris Decoupage límlakkinu mínu og þá var fyrsta skúffan tilbúin!

Svo þegar ég var búin að pappírsklæða allar skúffurnar, þá ákvað ég að ráðast í það að mála greyið því ekki gat ég látið hana vera svona á litinn, það passar bara ekki við nýju fötin hennar ;-)
Fyrsta skref var auðvitað að pússa aðeins yfir hana svo að grunnurinn festist betur

Svo var þessi elska grunnuð með hvítri mattri málningu og svo máluð með háglans Flugger málningu. Hún þurfti nokkrar umferðir en það var þess virði því svona lítur gellan út núna:

Er hún ekki orðin falleg? Það finnst mér ;-) Svo er bara spurning hvort ég eigi ekki að fjárfesta í nýjum höldum á elskuna því þessar rúmfó höldur eru eiginlega bara ekki nógu fancy fyrir gelluna lengur ;-)

Kíki í Sirku á morgun (er hún opin á sunnudögum?) og athuga með nýjar höldur!

Bless í bili fríða fólk! Vona að þið hafið ekki gefist upp á því að bíða eftir mér allan þennan tíma.
Þangað til næst...take care